Login
Get your free website from Spanglefish

Æviágrip  ICELANDIC

Alexander (Sandy) Robertson

Ég er frá Trossachs svæðinu, fæddist í  Bruach í Glen Arklet á Trossachs-svæðinu, sem er rómað fyrir náttúrufegurð og sess sinn í sögu og bókmenntum. Stærstan hluta æsku minnar varði ég í Trossachs, fyrir utan dvöl í Glasgow á stríðsárunum. Þann 22. júní 1955 hóf ég skógræktarferil minn hjá Skógræktarráðinu (Forestry Commission) sem skógarmaður í Loch Ard skóginum - upprunalega hluta Queen Elizabeth Forest Park, sem nú er hluti Loch Lomond & Trossachs National Park. Frá þeim tíma hef ég átt sérlega áhugaverðan og þokkalega farsælan feril í hagnýtri skógrækt, rannsóknum í skógrækt og síðast en ekki síst í kennslu á háskólastigi. Árið 1995 hætti ég í starfi mínu í rannsóknum á vegum kanadíska ríkisins og fór á eftirlaun.

Á veturna var ég forstöðumaður fyrir grasasafn á vegum hins opinbera og á sumrin vann ég við þróun og umsjón með skógræktarstöð á vesturhluta Nýfundnalands. Einnig vann ég á vegum Skógræktar Nýfundnalands (Newfoundland Forest Service) við að koma á fót stórri skógræktarstöð í miðhluta Nýfundnalands, við að koma upp hraðræktun á lífmassa (víði) til orkuframleiðslu um allt Nýfundnaland, þróaði líkan til að meta meðalhraða og átt ríkjandi vinda á grunni aflögunar trjáa (aðallega lerkis) og kortlagði út frá því ríkjandi vindáttir fyrir allt Nýfundnaland.

Að sjálfsögðu nýtti ég kortlagninguna líka til grasafræðilegrar könnunar – á þeim tímabilum þegar lítið var að gera í gróðrarstöðinni. Það eru þessar rannsóknir á sumrin og snemma vors sem eru grundvöllur skrifa minna og listar.

Um áratug áður en ég fór á eftirlaun beindi ég sjónum mínum að Íslandi (sem ég hafði heimsótt í tengslum við áhuga á fjallgöngum árið 1962), þar sem ég varð þekktur fyrir sérfræðiþekkingu mína og þar sem hef verið í samstarfi, fram á þennan dag, við Landgræðslu ríkisins, Skógrækt ríkisins og Skógræktarfélag Íslands (Ég veitt gullmerki og gerði líf meðlimur of Skógræktarfélagi Reykjavíkur). Ég var einn upphafsmanna gróðursetningar asparreits við Gunnarsholt, sem var lagður út  til rannsókna á langtíma orkuflæði milli jarðvegs, trjáa og andrúmslofts. Hingað til hefur reiturinn verið nýttur til um 50 íslenskra vísindarannsókna.

                                                                         

Árið 2004 þróaði ég og kenndi námskeið um Landslag og skjól sem gestaprófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri. Út úr því varð til Lesið í vindinn (aðgengilegt í „Bókasafninu“ hér á vefsíðunni), í samvinnu við og með stuðningi frá stofnunum skógræktar og landgræðslu á Íslandi. Það er þekking mín á samspili vinds við landslag og aðgerðir gegn vindáhrifum sem ég hef orðið hvað þekktastur fyrir á Íslandi undanfarinn aldarfjórðung.

Hvað háskóla varðar var ég heiðurslektor (Honorary Lecturer) við School of Agricultural and Forest Sciences, University College of North Wales, Bangor, við deild  Landbúnaðar, umhverfisvísinda og skógræktar (Agricultural, Environmental Sciences and Forestry) árin 1987- 1993, þar sem ég þróaði námskeið um Skógræktarfólk í fjölmiðlum (Foresters in the Media), er laut að meginreglum um framleiðslu sjónvarps- og fréttaefnis. Árin 1989-1995 var ég aðjúnkt við deild verkfræði og hagnýtra vísinda (Engineering and Applied Sciences) við Memorial University of Newfoundland háskólann. Í skiptum fyrir not á verkfræðitilraunastofum, sérstaklega fínum vindgöngum í háskólanum, kenndi ég námskeið um mat á verkfræðitækni (Assessment of Engineering Technology) og var leiðbeinandi nemenda með verkefni er lutu að umhverfisvísindum og verkfræði tengdri vatni. Frá 2004 hef ég verið gestaprófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands, þar sem ég hef þróað námskeið um skjólskóga fyrir nemendur og fagaðila tengda skógfræði, landslagsarkitektúr, skipulagi, umhverfisfræði, landgræðslu, landbúnaði, vegagerð og garðyrkju.

Ég hef lagt töluvert til málanna sem leiðtogi samtaka á fylkja-, lands- og alþjóðavísu. Árin 1992-1995 var ég í forystu fyrir hóp S1.03.00 - Umhverfisáhrif á skóga, innan International Union of Forestry Research Organizations [Alþjóðasamband skógræktarrannsóknastofnana], í Vínarborg í Austurríki, en sú vinna laut að því að styðja við alþjóðlegar rannsóknir varðandi vatnafar og veðurfar skóga. Ég var formaður Newfoundland and Labrador Climate Advisory Committee [Ráðgjafanefnd Nýfundnalands og Labrador um loftslagsmál], fulltrúi Nýfundnalands og Labrador í Canadian Climate Advisory Committee, Data and Applications [Ráðgjafanefnd Kanada um loftslagsmál, gögn og notkun], varaformaður Canadian Advisory Committe on Forest Climatology and Meteorology [Ráðgjafanefnd Kanada um loftslag og veðurfar skóga], formaður St. John's deildar Winter Cities Association [Samband vetrarborga], í ráðuneyti Náma og orku innan fylkisstjórnar Nýfundnalands, í ráðuneytisnefnd um orkunýtingu og óhefðbundnar orkulindir (Ministerial Advisory Council on Energy Efficiency and Alternative Energy). Ég var stofnmeðlimur í Mófélagi Nýfundnalands og Labrador (Newfoundland and Labrador Peat Association), sem hefur það markmið að hvetja til frekari notkunar á mó og ritstjóri fréttablaðs félagsins, Peat News.

Eins og Bókasafnsmappan bendir til hef ég ritað töluvert í ýmis vísindarit og oft setið fyrir svörum í útvarpi og sjónvarpi varðandi hagnýtar og vísindalegar hliðar borgarskógræktar, lífmassaræktunar til orkuvinnslu og áhrifa vinda á skóga og landslag.

Sem listamaður er ég best þekktur fyrir útskurð og grasafræðilegar teikningar, en stærsta verkið er 12 m löng röð sex útskorinna veggmynda sem sýna sögu Landgræðslu ríkisins í eina öld. Ég gerði einnig allar teikningar fyrir tvær bækur mínar, Móflóra Nýfundnalands (Peatland Flora of Newfoundland) og Starir Nýfundnalands (Carex of Newfoundland), en í henni má meðal annars finna lýsingu á tegund sem ég uppgötvaði og lýsti fyrst). Ég gerði líka tækniteikningar fyrir verkefni um vatnsknúnar sögunarmyllur á Nýfundnalandi (Waterpower Sawmills of Newfoundland), sem voru hugsaðar sem leiðbeiningar fyrir viðhald og endurgerð slíkra myllna, en því miður eru engar til lengur. Fleiri listaverk og aðra útgáfu má skoða/hlaða niður úr Bókasafnsmöppunni á síðunni.

Önnur áhugamál eru garðyrkja, útskurður í við og sekkjapípuleikur, en ég spila bæði á stórar og litlar sekkjapípur (Scottish small pipes, Great Highland bagpipes).

site map | cookie policy | privacy policy | accessibility statement